Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 940, 116. löggjafarþing 211. mál: Sementsverksmiðja ríkisins.
Lög nr. 28 13. apríl 1993.

Lög um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins.


1. gr.

     Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags er heiti: Sementsverksmiðjan hf.
     Í því skyni er ríkisstjórninni heimilt:
  1. að leggja Sementsverksmiðju ríkisins, þ.e. sjálfa verksmiðjuna ásamt öllu fylgifé hennar til hins nýja hlutafélags,
  2. að láta fara fram mat á eignum Sementsverksmiðju ríkisins til viðmiðunar við ákvörðun um upphæð hlutafjár hins nýja hlutafélags. Í þessu skyni skal bæjarfógetinn á Akranesi skipa þriggja manna matsnefnd og skal a.m.k. einn nefndarmanna vera löggiltur endurskoðandi. Öll hlutabréf í hlutafélaginu eru eign ríkissjóðs.


2. gr.

     Hlutverk félagsins skal vera að framleiða og selja sement fyrir innlendan og erlendan markað.
     Félagið annast rannsóknir, þróunarverkefni og efnavinnslu samkvæmt nánari ákvæðum er sett verða í samþykktum félagsins.
     Félaginu er heimilt að gerast eignaraðili í öðrum hlutafélögum eða sameignarfélögum.

3. gr.

     Heimili og varnarþing félagsins skal vera á Akranesi, en heimilt er að starfrækja útibú á öðrum stöðum.

4. gr.

     Fastráðnir starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins skulu hafa rétt til að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi og skal þeim boðið sambærilegt starf hjá félaginu og þeir gegndu áður hjá Sementsverksmiðju ríkisins. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.

5. gr.

     Fulltrúar í stjórn hlutafélagsins skulu skipaðir eða kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn, svo og varamenn þeirra.

6. gr.

     Við Sementsverksmiðjuna starfi samstarfsnefnd skipuð þremur fulltrúum frá hvorum, stjórn verksmiðjunnar og starfsliði hennar, ásamt jafnmörgum varamönnum. Hlutverk samstarfsnefndar er að efla samvinnu fyrirtækisins og starfsliðs þess, vera báðum til ráðuneytis og gera tillögur um bættan aðbúnað, heilbrigði og öryggi starfsliðs og hagkvæmni í rekstri fyrirtækisins.

7. gr.

     Fulltrúar hlutafélagsins skulu árlega halda tvo samráðsfundi með fulltrúum Akraneskaupstaðar til að ræða sameiginleg hagsmunamál.

8. gr.

     Ríkissjóður getur ekki boðið hlutabréf í Sementsverksmiðjunni til sölu nema hafa til þess samþykki Alþingis.

9. gr.

     Ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga um hlutafélög, nr. 32/1978, gildir ekki um tölu stofnenda í hlutafélaginu, né heldur ákvæði 1. mgr. 17. gr. sömu laga um tölu hluthafa. Að öðru leyti gilda ákvæði hlutafélagalaga um hið nýja félag og greiðir það opinber gjöld með sama hætti og almennt gildir um hlutafélög hér á landi.
     Iðnaðarráðherra skal skipa undirbúningsnefnd til að annast nauðsynlega samningsgerð fyrir hönd væntanlegs hlutafélags og leggja fram drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið á stofnfundi sem skal haldinn ekki síðar en 1. júlí 1993.

10. gr.

     Iðnaðarráðherra fer með eignarhlut ríkisins í félaginu.

11. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Hlutafélag skv. 1. gr. yfirtekur Sementsverksmiðju ríkisins 1. janúar 1994 og falla þá jafnframt úr gildi lög nr. 35/1948, um sementsverksmiðju.

Samþykkt á Alþingi 5. apríl 1993.